Book cover

Ó, faðir, gjör mig lítið ljós

Sálmar, 48


1. Ó, faðir, gjör mig lítið ljós um lífs míns stutta skeið, til hjálpar hverjum hal og drós, sem hefur villst af leið.

2. Ó, faðir, gjör mig blómstur blítt, sem brosir öllum mót og kvíðalaust við kalt og hlýtt er kyrrt á sinni rót.

3. Ó, faðir, gjör mig ljúflingslag, sem lífgar hug og sál og vekur sól og sumardag, en svæfir storm og bál.

4. Ó, faðir, gjör mig styrkan staf að styðja hvern sem þarf, uns allt það pund, sem Guð mér gaf, ég gef sem bróðurarf.

5. Ó, faðir, gjör mig sigursálm, eitt signað trúarlag, sem afli blæs í brotinn hálm og breytir nótt í dag.