1. Bænin er andans einlægt mál,
opinber eða hljóð,
hreyfing sem innra bærir bál
og brýst um í hjartans glóð.
2. Bænin er andvarp innra manns,
örhljótt sem falli tár,
upplyftar sálarsjónir hans
er sér aleinn Drottinn hár.
3. Bæn er á vörum barna smá
byrjunar fegurst hjal,
ómróf sem helgast heyra má
í himnanna dýrðarsal.
4. Bæn er hins kristna móðurmál,
meðfæddur andblær hans,
hið dýra orð við dauðans ál
og dyr til himna ranns.
5. Bænin er hróp hins breyska manns
brott er frá illu sté.
Og englar fagna iðrun hans:
„Sjá, auðmjúkt hann beygir kné.“
6. Guðsbörnin eru’ í bæn sem eitt,
bæði’ í orði’ og dyggð,
við Guðdóminn samband hafa heitt
í helgun sannri’ og tryggð.
7. Bænin er ekki andvarp hér
aðeins um mannheims ból,
því Kristur og andinn oss fram ber
ástríkt við Guðs náðarstól.
8. Ó, þú, sem opnar lýðum leið
í lífi, sannleik, trú
og kraupst til bænar kraminn neyð
kenn oss að biðja nú.
Texti: James Montgomery, 1771–1854
Lag: George Careless, 1839–1932
Íslensk þýðing: Jón Hjörleifur Jónsson, 1923